Sögur af lífi utanríkisráðuneytisstarfskonu í Nýju Jórvík...

 
Archives
<< current

 
Sibba
Sif
Binna sæta
Fríríkið
Kollý
Jóhanna Ósk
Fjalar
Deeza's Diner
Erla


Sögur frá Nýju Jórvík
 
11.8.06  
Allt í ljómanum hérna.. bara farin að hlakka til að komast í frí heim til Íslands í tvær vikur. Víííí... Veðrið verið fínt síðustu vikurnar nema í gærkveldi þegar rigndi sem aldrei fyrr. Leit út eins og hrísgrjónaakur á svölunum hjá mér og þrumur og eldingar sem hreinlega lýstu upp íbúðina og fengu rúðurnar til að titra!!
Fínt veður í dag samt, alveg sæmilega hlýtt en ekki eins og verið hefur síðustu vikurnar.

Er að fara að sjá Barcelona spila fótbolta á morgun á móti einhverju liði héðan sem heitir Red Bulls.. og herlegheitin fara fram á Giants Stadium. Þetta verður svaka gaman held ég, vona að Ronaldinho verði með er ekki alveg eins spennt fyrir Eið Smára en ef hann er með stendur hann sig örugglega vel.

Sé ykkur eftir rúma viku :-)))))))))))

23:10 Viltu blaðra?

24.4.06  
Howdy!
Þá er nú Englandsför að ljúka, ég fer í flugið á morgun og áætla að vera komin heim til New York um níuleytið annað kvöld. Ég er himinsæl með ferðina búið að vera æðislega gaman með mömmu og pabba, Ellu, Esju, Sólu og Trevori og allir bara þokkalega hressir. Besta af öllu er samt að ég náði að dobbla mömmu heim með mér og því förum við saman í vélina á morgun. Hún ætlar að stoppa í mánuð hjá mér og nú er bara að vinna að því að fá pabba til að koma seinna líka og vera samferða frúnni sinni heim til Englands 25. maí n.k. vonanadi gengur það vel, ég skora á þá sem lesa að þrýsta á kallinn.. hann hefur bara gott af því að kíkja aðeins yfir hafið til stórborgarinnar! Helst hefði ég auðvitað viljað hafa alla með mér heim en það gengur því miður ekki í þetta skiptið.. Ella er til að mynda á Íslandi þessa vikuna og Trevor að vinna á fullu í húsinu og hugsa um börn og heimili.. æ.. kannski næst ha?! Stelpuskottin frænkur mínar eru yndislegar, skemmtilegar, sætar og klárar og gaman að kynnast þeim að nýju, það versta við að búa svona langt frá þeim er að maður verður einmitt að kynnast þeim alltaf upp á nýtt og leifa þeim að kynnast manni. Esja er nú orðin svo stór (rúmlega fjögurra ára!) að hún man eftir manni frá heimsókn til heimsóknar en er auðvitað pínku feimin svona til að byrja með en það fer þó fljótt af. Sóla er líka mun stærri en þegar ég sá hana síðast auðvitað og verður ekki eftirbátur systur sinnar í mörgu held ég.. hún heldur alveg sínu striki sama hvað tautar og raular en er sátt við að vera bara með mömmu sinni eða afa þó hún sé voða góð við ömmu sína og auðvitað Dísu frænku.. svona í lokin alla vega. Gaman að þeim báðum þessum elskum og ég hlakka svaka til að hitta þær á Íslandi í sumar, það verður alveg frábært að eyða meiri tíma með þeim og það heima á landinu bláa sem maður er nú farinn að sakna alveg ferlega öðru hvoru. Bið að heilsa í bili..

17:33 Viltu blaðra?

2.3.06  
Vitlaust að gera í vinnunni.. ég er svoo þreytt þegar ég kem heim að mig langar minnst að kveikja á annarri tölvu!! Þannig að þið verðið að vera aðeins þolinmóð elskurnar, ég lofa að skrifa um leið og hægist aðeins um.. sennilega núna bara eftir helgina næstu ;-)

14:18 Viltu blaðra?

25.10.05  
Hefur David Grohl einhvern tíman tileinkað þér lag? Ekki?? Jamm.. hann tileinkaði mér lag á tónleikunum um daginn. Ég er búin að vera að berjast við hvernig ég á að segja frá þessum tónleikum og því hefur þetta tekið sinn tíma eins og þið skiljið eftir lesturinn!

Það byrjaði þannig að miðvikudaginn fyrir tónleikana (sem voru á föstudegi by the way) hringdi hingað á skrifstofuna gaur sem er með tónlistarstöð á netinu. Hann vildi fá að vita hvar hægt væri að kaupa íslenskt Brennivín í Bandaríkjunum. Ég tjáði honum að sjálfsögðu að það væri því miður ekki hægt að mínu viti og spurði í leiðinni hvers vegna?? Jú hann ætaði að fara að “hanga” með Foo Fighters fimmtudag og föstudag og uppáhald Dave Grohls væri einmitt Brennivín og hann hefði viljað færa honum flösku. Eftir að hafa spjallað aðeins um tónleikana verðandi (ég sagði honum auðvitað að ég væri að fara á tónleikana líka og bla bla) þá bauðst ég auðvitað til að redda manninum flösku! Gæinn varð svona líka himinlifandi við þessar fréttir að ég var bara komin í gyðjutölu í hans huga. Núh..ég leitaði hátt og lágt þar til að Brennivínsflaska fannst að lokum og var tilkynnt um hana með det samme til félagans og hann kom hress og kátur að hitta mig morguninn fyrir tónleikana sem ég ætlaði á. Hann vildi endilega gera eitthvað fyrir mig fyrir flöskuna og ég sagði honum að við vinkonurnar hefðum svo sem ekkert á móti því að hitta Foo Fighters og Weezer sko.. hann lofaði að gera hvað hann gæti og með það kvöddumst við.. lofandi að vera í bandi síðar um daginn.

Síðar sama dag hringir svo önnur af þeim sem fór með mér á tónleikana.. og bað um númerið hjá þessum gæja... rétt svona til að kynda hann og athuga hvort við gætum nú ekki örugglega hitt alla vega Dave Grohl. Þau eru svo í einhverju sms sambandi yfir daginn og einnig þegar við komum á staðinn..Weezer voru byrjaðir að spila (því miður) en við komum seint þar sem að samgöngur voru ekki alveg að gera sig þetta kvöldið og við þurftum í rútu á tónleikastaðinn Continental Arena í New Jersey.

Weezer voru FRÁBÆRIR auðvitað þéttir og í góðu rennsli og ég skemmti mér alveg konunglega. Á einum tímapunkti skiptu söngvarinn og trommarinn um hlutverk og tóku þeir eitt lag svoleiðis og leiddu það svo yfir í "Song 2" með Blur sem mér fannst soldið skrýtið en bara gaman.. í lokin á því tók trommarinn svo svaka gítarsóló og hinir tveir smelltu sér að trommunum til söngvarans og trommuðu allir þrír þar til þeir enduðu lagið með smell og fleygðu allir í einu kjuðunum í áhorfendaskarann og svo varð alveg myrkur á sviðinu. Allt ætlaði um koll að keyra og fólk var enn að klappa og stappa þegar einn stór kastari lýsti allt í einu á “soundboard”- ið en þar stóð söngvari Weezer með kassagítarinn sinn og söng “Island in the Sun” algjörlega gæsahúðarefni og hápunkturinn á tónleikunum fyrir mig. Þegar þessu lauk tóku þeir tvö lög í viðbót m.a. Undone (the Sweater Song) og tók fólk hressilega undir.

Á meðan verið var að róta fengum við svo SMS að spyrja hvar við værum í höllinni. Athugið að þetta er íþróttahöll MUN stærri en Laugardalshöllin og við vorum hátt uppi.. langt frá sviðinu... “Nosebleed Section” sem kallað er. Við létum vita hvar við værum og svo byrjuðu Foo Fighters að spila. Mjög gaman að þeim eins og ég ímynda mér að alltaf sé.. en milli fyrstu nokkurra laganna talaði Grohl slatta við áhorfendurna og svo kom: “How are you doing people? So many of you it always amazes me.. especially you Nosebleeds. How are you 201??” Fólkið þar trylltist.. og svo hélt hann áfram: “There are special people here tonight.. 201 I love you.. this one is for you... “ Svo söng hann voða lítið sætt lag.. gerði skál merki í lokin (eins og að lyfta glasi þið vitið) og sagði svo “ I love you” aftur .. Næsta sem við vissum var að við fengum SMS sem sagði að þetta væri gert sér fyrir mig/okkur! Víííí.. Við vorum voða glaðar með þetta eins og getur nærri.. en ekki bólaði neitt á því að við fengjum boð um að fara baksviðs þannig að þegar settinu lauk og bara hugsanlega uppklappslög eftir stakk önnur samferðakona mín upp á því að við drifum okkur út í rútu því annars þyrftum við pottþétt að bíða í 2 tíma alla vega eftir að komast inn á Manhattan aftur. Ég var svona treg til að fara þar sem að mig langaði að sjá uppklappið og einnig var ég enn að vona að maður fengi að skála við kappana.. en mér var gerð grein fyrir því að það myndi ekki gerast og við yrðum fastar á bílaplani í New Jersey í ófyrirséðan tíma.. lét ég til leiðast og skokkaði með þeim út.

Við vorum í fyrstu rútunni sem fór frá höllinni og þegar við komum á Port Authority rútustoppið á Manhattan var drifið sig á klóið og svo farið að hugsa um hvað næst... Þegar við erum að fara út af klóinu á Port Authority kemur sms “ Please proceed backstage, Dave Grohl wants to thank you in person!” Ég hef aldrei verið eins miður mín á ævinni!! Hvað vorum við að hugsa.. skítt með það þó að maður bíði í smá tíma eftir rútu.. ég meina COME FUCKING ON!! Kvöldið var ónýtt fyrir mér.. við fórum eitthvað í bæinn, heimsóttum kærasta annarrar af stelpunum og svo kíktum við á einhvern stað á 1st Ave og 1sta stræti.. en ég skemmti mér sko ekki! Fór heim að sofa um 2 leytið og bara ekki hress.. aumasta manneskja sem þið hafið séð á laugardeginum líka.. þangað til ég fór með Möggu Frímanns og fólkinu hennar í China Town og svo heim þaðan að hitta Sif vinkonu sem átti einmitt afmæli á sunnudeginum (16. okt.). Við Sif fórum auðvitað út að tjútta í tilefni afmælis hennar og til að hressa yours truly við og gekk það svona líka vel að við skröltum heim um 6:30 á sunnudagsmorguninn. Jamm.. hér er lítið slegið af sko. Alla vega hér er sagan af tónleikunum síðustu sem ég fór á (alla vega rokktónleikum) er búin að sjá Sweeny Todd og YL Male Voice Choir frá Finnlandi síðan.. en það er nú önnur saga. Úff maður verður eiginlega bara blúsaður aftur við að skrifa þetta... well ég hitti Dr. G (einhvern mest kúl rokkara samtímans) bara næst.. ha? HA????

14:39 Viltu blaðra?

12.10.05  
Jæja vinnuvikan rúmlega hálfnuð, hefur alveg flogið.. það er nóg að gera í vinnunni og það er alltaf skemmtilegt.

Nóg um að vera á menningarheimili mínu síðasta laugardagskvöld líka, hér hefur ekki verið svona mikið stuð síðan Kiddi varð þrítugur! Við Begga buðum í mat, íslenskan lambahrygg með öllu svona aðallega fyrir vin okkar Everett sem er kokkur (eldar fyrir ríka og fræga fókið svona aðallega) og er þar af leiðandi aldrei boði í matarboð.. við stöllurnar hræðumst nú ekki svona sko enda erum við frábærir kokkar sjálfar. Þemað var íslenskt svona mest allt kvöldið, íslenskur matur, íslenskt brennivín og íslensk tónlist auðvitað. Erla vinkona okkar var hér líka, einnig David maður Beggu og Paul og Dave vinir okkar. Við þessar íslensku tókum okkur til og tókum smá söngnúmer við mikinn fögnuð enda hafa Tvær úr tungunum ekki heyrst í þessari íbúð nema einu sinni síðan ég kom hingað :-) Kvöldinu var svo eytt fram á nótt á dansskónum hér í stofunni alveg fram undir þrjú!! Kverkarnar vel vættar og gestirnir fóru mettir og reifir heima á leið.

Var að enda við að horfa á merkilegan þátt um stríðskonur (warrior women), tveir fornleifafræðingar hafa verið að grafa upp staði í suður Rússlandi í nokkur ár og hafa þar fundið nokkuð margar grafir með kvenbeinagrindum sem hafa verið grafnar með gull og vopn og sumar með hestum sínum meira að segja. Þau voru að reyna að færa sönnur á að Amazon konurnar hafi verið til í raun og veru og eftir Trójustríðið þar sem þær töpuðu fyrir Grikkjum hafi restin af þeim verið teknar höndum og siglt með þær á svarta hafinu. Valkyrjurnar drápu náttúrlega þá sem rændu þeim og enduðu skipsferðina í suður Rússlandi þar sem þær giftust inn í stríðsflokk karla þar og héldu sínu striki og börðust með mönnum sínum. Annar fornleifafræðingurinn fékk vin sinn sem er sennilega einn færasti DNA fræðingur í heimi til að taka sýni úr 2500 ára gömlum beinunum og kom í ljós að þetta voru allt konur sem grafnar höðu verið upp. Alla vega þátturinn leiddi svo í ljós að afkomendur Amazon kvennanna eru hirðingjar í hrjóstrugustu héruðum Mongólíu! Þar var tekið sýni úr ljóshærðri stúlku og kom í ljós að hennar DNA var svo líkt DNA-inu úr beinunum að undrum mátti sæta. Merkilegt ha!? Mér finnst frábært að þetta var ekki bara þjóðsaga heldur voru þessar ótrúlegu konur til í alvörunni.

Anýhú mér fannst þetta alveg ótrúlegt, líður ykkur ekki betur líka? Að vita þetta?? Jebb, vissi það. Er svo að fara að sjá Foo Fighters og Weezer á föstudagskvöldið með Erlu og Guðlaugu vinkonu hennar. Hlakka til.. læt ykkur vita hvernig var.
Þangað til... túduls.

21:03 Viltu blaðra?

24.9.05  
Hef verið klukkuð af Kollý vinkonu minni og því skilst mér að ég verði að segja ykkur 5 staðreyndir um sjálfa mig...

1. Er bæði mjög fegin og í leiðinni pínku leið yfir því að ættingi Magnúsar hans Einars drapst án mikillar fyrirhafnar inni í kústaskáp límdur í gildru. Þessar blendnu tilfinningar eru af því komnar sennilega að maður hélt með Jenna, Dangermouse og Basil leynilöggumús hérna þegar maður var lítill...Mikki mús var aldrei að rokka fyrir mér, en mýs eru einhvern vegin ekki eins hættulegar og hræðilegar og rottur.. þá hefði þetta kvikyndi mega drepast mín vegna og enginn verið leiður!

2. Þegar ég var lítil öfundaði ég Helgu vinkonu mína mjög af hárinu hennar sem var svo þykkt og slétt og sítt... og skollit. Mér fannst algjört helvíti að vera með svona dökkt krullað hár og dökka húð allt öðruvísi en systur mínar og æsku vinkona mín. Ég var víst líka mjög afbrýðisöm við hana út af ömmu sem auðvitað átti ekki að sýna öðrum athygli en mér helst.

3. Ég er svo lítil saumakona í mér að ég hef átt saumavél í rúmt ár og hún hefur ekki enn komist inn fyrir dyr í íbúðinni minni og í eina skiptið sem hefur verið kveikt á henni var þegar Begga vinkona mín var að athuga hvort hún virkaði.

4. Ég þoli ekki ameríska stefnumótamenningu, reglurnar eru mjög svo hallærislegar og svo er þetta meira eins og atvinnuviðtal með víni og oft mat heldur en skemmtileg kvöldstund með áhugaverðri manneskju.

5. Ég spilaði á klarinett í Skólahljómsveit Kópavogs í nokkur ár en get ekki lesið nótur.

Jæja félagar þá er það komið.. að vísu hefði ég getað valið einhverjar aðrar staðreyndir um mig en læt þessar duga í bili. Er þá ekki komið að mér að klukka?? Er að hugsa um að velja Erlu og ríkisstjórn Góðbjórs

Af öðru er helst að segja að Sibba vinkona er hjá mér í stuttri heimsókn.. það er búið að taka vel á í djamminu síðastliðna viku, þannig að "eðlilegt ástand" á heimilinu er eiginlega þynnka! Í alvöru, hefði einhverjum dottið það í hug að ég ætti þetta til? Kíkt aðeins í flösku síðasta laugardagskvöld með Sibbu, Sif, Beggu og Paul.. lákum hér inn um dyrnar um fimmleytið á sunnudagsmorguninn. Svo var aðeins tekið á því, óvænt, á þriðjudagskvöldið.. á fimmtudagskvöldið fórum við Sibba svo að hitta Álfheiði vinkonu Jóhönnu Óskar, kíktum á nokkra kokteila og svona eins og eina hvítvín.. svaka gaman.

Við Sibba skelltum okkur svo á Pangea í gærkveldi og hittum þar fyrir Paul og David, Dave hennar Beggu og svo kom Begga og með henni tvær vinkonur hennar að heiman Hilla og Sossa (frábærar fótboltastelpur báðar tvær)og var sullað ágætlega í sig :-) Komum heim milli tvö og þrjú og fór undirrituð bara beint í rúmið enda ekki í ástandi til annars. Þynnka og bolti fram eftir í dag.. skilst að það hafi nú verið gerð frekari plön um djamm í kvöld í gær.. já já taka bara eina góða verslunarmannahelgi..ha??

10:49 Viltu blaðra?

14.9.05  
Fór á tónleika með Sigur Rós í Beacon Theater á mánudagskvöldið með Erlu, Emil Breka og Matthíasi en við vinnum öll saman. Tónleikarnir voru frábærir, þeir spiluðu bæði ný lög og gömul í bland og var bara talsvert rokk í gangi. Áhorfendur voru vel með á nótunum stóðu á fætur í lokin og klöppuðu bandið upp þrisvar, heyrðust meira að segja nokkur "Áfram Ísland" svona í hita leiksins.. bara eins og á alvöru landsleik ma'r. En því ber alls ekki að neita að strákarnir voru frábærir og nutu aðstoðar hljómsveitarinnar Amina sem hitaði líka upp fyrir þá og voru bara annsi skemmtilegar líka. Nýju lögin voru nokkuð þétt og skemmtileg og hlakka ég til að heyra nýja diskinn.

Annars er bara allt gott að frétta héðan úr stórborginni, vinnan skemmtileg og fullt að gera í félagslífinu eins og alltaf... reyndar enn meira næstu vikurnar þar sem að hún Sibba mín er á leiðinni. Kemur á föstudaginn og er hjá mér í tíu daga við ætlum út að tjútta á laugardagskvöldið með stelpunum vííí.. ekki leiðinlegt ha??

Meira seinna elskurnar.. ætla að fara að halla mér.

21:26 Viltu blaðra?

27.8.05  
Ussu suss.. löngu komin heim aftur og allt það.. og ekkert búin að tala um matarboðin æðislegu hjá Gumma frænda og Monicu konu hans.. Grillið á Sögu, Kabarett með ömmu og Tinnu eða aðgerð á táslu, Sölku Kidda og Sifjar, heimsókn til Ásgeirs og Olgu, heimókn til Sigga eða neitt annað skemmtilegt sem gerðist á landinu bláa. Þið verðið að afsaka áheyrendur góðir en ef ég fer nú að rabba um þetta sérstaklega verður þetta bara eins og hver önnur upptalning og ekkert skemmtilegt. Get þó ekki látið vera að minnast aðeins á hversu gaman var að koma heim eftir ár í burtu og hitta alla sem heima voru. Ég átti alveg yndislegt frí, takk fyrir mig allir.

Erla var flutt inn í íbúðina mína þegar ég kom til baka, búin að þrífa hátt og lágt og bara allt í góðu stuði hérna megin við hafið. Það er voða gaman að hafa sambýling til að spjalla við á kvöldin enda hefur varla verið kveikt á sjónvarpinu hér síðan maður lenti sko. Stelpan er þó að flytja um helgina í íbúð í Brooklyn með vinkonu sinni og verð ég að segja að ég á eftir að sjá eftir skvísunni þó hún sé ekki að fara langt í bili. Við höfum líka verið þvílíkt duglegar að elda hérna heima, bjúgu með uppstúf og grænum baunum hvað þá meira. Fórum svo í gær eftir vinnu í ágætis bæjarrölt, keyptum okkur slatta af tónlist (ég hef aldrei átt neitt með Coldplay fyrr, keypti líka Interpol handa Tinnu, Stephen Malkmus handa mér og Birthday Party best off disk!) enduðum svo á Pangea í rétt rúmlega tveim hvítvínsflöskum og úrvals spjalli. Þvílík plön sem gerð eru svona þegar maður er aðeins orðinn rykaður.. sheesshh.

Framundan eru svo spennandi tímar í vinnunni.. það er bara allt að fara af stað hér eins og alltaf í september og hlakka ég mikið til að takast á við verkefnin.. einnig sýnist mér félagslífið á uppleið að nýju, nú er maður búinn að fjárfesta í miðum á FooFighters og Weezer (saman á tónleikum)en ekki fyrr en í október. Sibba er á leiðinni til mín í smá heimsókn í september og verður nú aldeilis tekið til við að tvista þegar að því kemur sko. Heyri í ykkur seinna.. over and out.

13:06 Viltu blaðra?

10.8.05  
Búin að vera heima í 11 daga.. og er að fíla mig vel bara á klakanum. Búin að fara í ótal matarboð og heimsóknir, eiga afmæli.. já, ég þakka innilega gjafir og góðar kveðjur sem mér voru sendar allstaðar að úr heiminum í tilefni dagsins, yndislegt að eiga svona góða að :-) Nú er læknamafíuvesenið byrjað. Fór til tannlæknis í gær og er nú komin með krónuna aftur þó að minn ágæti tannlæknir sé að tala um meiriháttar framkvæmdir til að koma í veg fyrir svona krónulos að nýju. Hún vill helst taka þessa tönn alveg í burtu og þá við hliðina líka og setja einhverskonar "inplants" í staðinn en það tekur einhverja mánuði, hundruð þúsunda og a.m.k. eitt stykki skurðaðgerð!! Ég lofaði að hugsa málið.. ekki mjög freistandi finnst mér reyndar en ef þetta er það eina sem virkar til frambúðar er alla vega minnsta sem ég get gert að hugsa málið.

Frændsystkinin komu ásamt mökum í kaffi í gær hingað í Kópavoginn. Við systur panikkuðum pínulítið og þrifum út alveg íbúðina þannig að nú er allt glansandi fínt. Einnig nennti enginn að baka mikið svo maður reddaði sér á marens og svömpum, flatkökum með osti, ostum og vínberjum og ávöxtum. Gaman að hitta gengið að nýju, Gummi og Elísabet komu með börnin með sér en annars hafa þessi boð alltaf verið barnlaus. Ekki gott fyrir þau að finna barnapíu fyrir tveggja og hálfs árs skæruliða og glænýja píu.. enda þarf múttan nú að vera nálæg, alla vega til að gefa að borða og svona!! Ármann og Hildur voru þó í góðu stuði bæði og gaman að sjá þau finnst mér. Við sátum svo eftir að allir voru farnir, ég, Tinna og Pete og spjölluðum saman.. þangað til Pete fór að sofa og við systur gátum loks haldið áfram með sitt hvorn Potter-inn. Jamm við fengum Harry Potter nýja frá mömmu og pabba í ammlisgjöf og erum búnar að vera að glugga í þetta að sjálfsögðu síðan að pakkinn loks kom. Ég kláraði mína áðan og varð ekki fyrir sérlegum vonbrigðum með bókina.. þó að mér finnist strákurinn aðeins of "fattlaus" miðað við allt sem á undan er farið. Nú langar mann bara að ná í sjöundu og síðustu bókina (alla vega geri ég ráð fyrir því að höfundur breyti því ekki) og klára dæmið.

Well.. ég þarf að fara að hafa mig til fyrir lækni númer tvö í dag.. og gef skýrslu aftur síðar, tjaó.

07:58 Viltu blaðra?

22.7.05  
Svo.. maður er bara kominn heim eftir rúma viku.. 5 vinnudagar þegar þessi er búinn.. woohoo!! Get bara varla beðið eftir að hitta Tinnu og Pete, Sibbu, Agga, Kidda og Sif og erfingja þeirra hana Sölku.. jebb þau eru búin að eiga og fengu sum sé stelpu sem var 17 merkur og 52 cm gat bara varla verið betra, afturðin ber nafnið Salka og er mjög blandað eintak af foreldrum sínum. Hlakka til að hitta dömuna í eigin persónu en ekki á mynd eða sem hljóð í símanum :-)) og já ég hlakka til að hitta ykkur öll líka!!! Tanja (stjúpdóttir Össa) og kærastinn hennar eru á leiðinni og ætla að vera hér alla helgina.. ég sendi þau sennilega að mestu leyti út að versla og skoða sig almennilega um.. og ég eyði tímanum í að kíkja á það sem mig vantar áður en ég legg í ferðalag og í að þrífa íbúðina mína.. kannski arfreyta svalinar líka?! Sjáum til.. það tekur því nú varla að vera að leggja brjálaða vinnu í svalirnar bara til að þær verði orðnar nákvæmlega eins þegar ég kem aftur.

Matarboðin mín hafa gengið vonum framar (hef haldið 3 í júlí) og lítur út fyrir að ég verði að halda boð reglulega hér eftir.. að minnsta kosti finnst Paul og Dave það.. kannski þeir séu þá til í að reyta svalirnar og þess háttar í staðinn fyrir mat?? Styng upp á þessu í kvöld.. við Begga ætlum á Pangea og það er nú alltaf líklegt að rekast á strákana þar á föstudagskvöldi. Þarf að hitta Arnaldo líka og segja honum að skeljarnar sem hann gaf mér í jólagjöf taka sig alveg sérlega vel út í rammanum sem ég valdi fyrir þær og smekkvísi Hrefnu í galleríinu svíkur ekki fremur vanalega.. þetta er algjört æði! Nú er bara að finna stað fyrir herlegheitin.. einhverjar uppástungur?

13:38 Viltu blaðra?

15.7.05  
Bara komin helgi aftur og svaka gott verð ég að viðurkenna.. mér finnst tíminn ekkert líða, er að bíða eftir að komast heim í heiðardalinn. Eins er maður að bíða eftir góðum fréttum frá forsætisráðherra Góðbjórs og hans yndælu frú.. en erfinginn er nú eitthvað að láta bíða eftir sér skilst mér!! Vona bara að þetta fari nú að gerast fljótlega.. Sif hlýtur að vera orðin annsi þreytt.

Fór að sjá ballet á mánudaginn í Dicapo Opera Theater en þar er um þessar mundir haldin 4. alþjóðlega danssýningin í New York og var eitt íslenskt verk "Græna verkið" eftir Jóhann Björgvinsson og Filippíu Elísdóttur en Jóhann Freyr Björgvinsson er einmitt gamall skólafélagi úr Digranesskóla, snilldar dansari og danshöfundur. Enda var það vægast sagt að sjá af þeim verkum sem sýnd voru þetta kvöld.. opnunar kvöldið by the way.. að þetta virtist ekki vera mjög professional sýning nema verkið hans Jóa sem hreinlega bar af, bæði í hugmyndafræði og ekki síst hvað varðaði dansara.. en hans dansarar voru alveg toppurinn af þeim sem tóku þátt í hátíðinni. Við fórum saman 5 stelpurnar og skemmtum okkur alveg vel, sýningarhaldararnir sendu okkur VIP miða í móttöku á undan og svo mjög góð sæti í salnum. Það var líka alveg frábært að hitta Jóa, Ingu Maríu, Filippíu þarna á undan og eftir og svo í hléinu þegar ég var að bíða eftir að komast út mætti ég Darra en konan hans hún Lovísa er einn af dönsurunum í "Græna verkinu". Mjög gaman að hitta þau og fá fréttir af þeim og auðvitað ákváðum við að fara og fá okkur drykk eftir sýninguna. Erla (starfsneminn okkar hjá fastanefndinni, yndileg stelpa) var eina af mínum hóp sem lét til leiðast að fara með og drifum við okkur með krökkunum á Hudson Hotel barinn sem er mjög flottur en dálítið hávær. Fór svo heim um miðnættið að sofa enda vinnuvikan framundan..þó gaman hefði verið að sitja og æpa á fólkið dálítið lengur.

Fór að hitta Sigga í gærkveldi og við fórum á tælenskan stað í Soho að borða og stærsta Mojito sem ég hef séð... röltum svo aðeins um, fundum skemmtilegan vínbar og fengum okkur drykk þar líka.. svo það var aðeins rykuð Dísa sem fór heim í lestinni í gærkveldi :-)

Það var svo síðasti dagurinn hennar Helgu í vinnunni í dag og við hin í vinnunni buðum henni i hádegismat í dag. Gréta er í heimsókn í borginni og leit við að borða með okkur.. æi ég á eftir að sakna Helgu, Haffa og Urðar en þau eru að fara til Stokkhólms í lok mánaðarins. Gangi vel og takk fyrir samveruna elskuleg.

Á svo von á Beggu, David, Alex, Paul og Dave í mat annað kvöld svo manni leiðist ekki verulega.. nóg um að vera hérna sko. Jæja læt þetta duga í bili.. heyrumst.

20:24 Viltu blaðra?

7.7.05  
Kom að því að maður héldi kannski eitthvað áfram að blaðra hér.. ekki þar fyrir að ég reikna nú eiginlega bara með að flestir séu hættir að kíkja hér inn og skiljanlega!

Ýmislegt gerst síðan síðast, Ásta og Palli komu í heimsókn sem var yndislegt, við fórum aðeins um bæinn, út að borða og svona.. sáum eimitt Söru Jessicu Parker og hennar ektamann Matthew Broderick á Nobu Next Door.. sem alveg bara gerði ferðina fyrir Ástu held ég :) Svo komu systur mínar um páskana og eyddum við nokkrum dögum í versl og þvílíkt sem var mjög gott og gaman að hafa þær hjá mér.

Mamma og pabbi komu svo til mín í lok apríl og voru fram í lok maí.. eða nánast.. þau skruppu í viku til Dúddu frænku í Kanada og svo fórum við líka eina helgi í heimsókn til Össa frænda. Pabbi hennti upp bókunum mínum, hengdi upp myndir og tók til á svölunum mínum á meðan mamma lagaði til í íbúðinni.. ég meina fólkið var í fríi, halló!! Ekki að ég sé að kvarta yfir afrakstrinum, íbúðin mín hefur aldrei verið svona fín.. ég keypti meira að segja tvo lazy boy stóla svona rétt til að það væri hægt að setjast niður. Svo fórum við öll samferða til Englands til að halda upp á 30 ára afmælið hennar Tinnu minnar.. við vorum öll á sama stað í fyrsta sinn í langan tíma.. í fyrsta skiptið fyrir Sólu..eins komu mamma og pabbi Pete í heimsókn til Worthing og systir Pete líka hún Kelly. Við áttum bara mjög skemmtilegan tíma saman nema aumingja Tinna þurfti soldið að vinna svo það var ekki alveg eins afslappað fyrir hana þessa elsku og ég hefði viljað. En við reddum því nú í ágúst því ég er að koma heim í frí.. woohoo.. kem 30. júlí og verð til 20. ágúst. Get ekki beðið það verður skelfilega gaman. Anyway.. ætla að fara að halla mér á eyrað..hef góðar vonir um að helgin verði skemmtileg svo maður verður að spara kraftana. Hasta luego..vonandi.

22:15 Viltu blaðra?

4.3.05  
Vá rúmlega mánuður án þess að skrifa staf á síðuna.. það er nú vel af sér vikið.. þó að þetta hafi reyndar verið stysti mánuðurinn á árinu. Ýmislegt hefur þó á dagana drifið.. ég frétti af barnsfæðingu og nafni í höfuðið "uppáhalds frænda fjölskyldunnar" og fann ég síðu hans á barnalandi og skemmti mér vel yfir að skoða hana, myndir úr skírninni og allt það sko. Ég keypti mér nokkrar bækur í viðbót (eins og það sé plás.. ha ha ha ha) og dvd disk.. horfði loks á 8 Mile og svo fór ég að sjá fyndnasta mann í heimi síðasta föstudag!!
Við Begga skelltum okkur saman á sjóið og sér enginn eftir því. Við sátum á frábærum stað (orchestra seats) og lentum einhvern veginn í miðjum hóp af Skotum og Englendingum sem augljóslega stylla úrin sín eftir manninum og því var enn meira gaman því fólkið í kringum okkur gersamlega grét úr hlátri.. og tók ég vel undir með þeim mest allan tímann enda þarf ekki mikið meira en hósta frá ákveðnu fólki til að ég skelli upp úr.
Ætlaði varla að þora að segja litlu systir og hennar manni frá þessu þar sem að þau kynntu mig fyrir snilldinni á sínum tíma og er þeim að þakka að ég er svona mikill aðdáandi.. en ég reyni að finna út hvort hann kemur ekki aftur fljótlega og þá get ég bara keypt miða handa þeim líka og þau komið yfir til að sjá kallinn.
Skilst reyndar að Eddie Izzard sé í heimsókn á Íslandi fljótlega og er ég frekar öfundsjúk og svekkt yfir að missa af honum enda er hann eiginlega jafn fyndinn og Billy Connolly finnst mér.. bara á annan hátt. Svo þið heppnu sem fenguð miða á þessum 8 mínútum sem tók að seljast upp.. skemmtið ykkur frábærlega og ekki drekka mikið á undan eða á meðan.. borgar sig alls ekki!

Það er svo helst í fréttum að nú eru bara 7 dagar í Ástu og Palla (þau ákváðu að kíkja á stelpuna.. henni til ómetanlegrar gleði) og 18 dagar í að systur mínar komi til mín. Handleggs og magavöðvar ættu að fá góða þjálfun í báðum þessum heimsóknum og var hitað aðeins upp í gær, enda einn af gestum okkar hér í vinnunni árinu eldri í gær og svo varð ég auðvitað að fara með systur gamals kunningja og vinar út að maður minnist ekki á hana Lilju, þessa elsku og því var öllu slegið saman og aðeins kíkt á mat og DRYKK svona helst sko. Því læt ég þessu lokið í bili.. enda heilsan ekki alveg 100 prósent í dag.. hip hip.. o.s.frv.

15:28 Viltu blaðra?

26.1.05  
Nánast nafna mín var með svona könnun á sinni síðu og ég bara stóðst ekki freistinguna og tékkaði tvisvar á mér þar sem að það kom tvennt til greina með nokkrar spurningarnar og hér eru niðurstöðurnar:


Float On by Modest Mouse

"Bad news comes don't you worry even when it lands
Good news will work its way to all them plans"

Laid back and real, people appreciated you for you are in 2004.


Ekki slæmt... nokkuð ánægð með þetta enda eðal band!

1985 by Bowling for Soup

"Where's the mini-skirt made of snakeskin?
And who's the other guy that's singing in Van Halen?
When did reality become T.V.?
What ever happened to sitcoms, game shows?"

You took the bitter with the sweet in 2004 - and kept laughing.
Hef ekki hugmynd um hvað mér finnst um þetta... hef reyndar séð tvo af þessum gaurum nokkrum sinnum í sjónvarpi að kommenta á dægurmál fyrr og nú og finnst þeir báðir nokkuð fyndnir en verð að viðurkenna að ég þekki ekki tónlistina!

Í öðrum fréttum er það helst að Sibba kom og er farin aftur, við skemmtum okkur konunglega eins og alltaf og var voða gaman að geta kynnt hana fyrir nokkrum nýjum vinum og svona. Héldum upp á afmælið hans Alexar Laxdal Apelewicz með pompi og prakt eins og ber að gera þegar maður er eins árs. Fórum fullt út að borða og drukkum smá hvítvín :-) Takk fyrir komuna vinkona. Svo er bara verið að telja niður í það að systurnar láti sjá sig.. 54 dagar nokkurn vegin.. WOHOO!!

15:15 Viltu blaðra?

6.1.05  
Gleðilegt ár allir, vona að þið hafið haft það frábært yfir hátíðarnar. Takk fyrir kort og gjafir, það var verulega gaman að fá þetta allt og ég vona bara að þið hafið verið jafn ánægð með ykkar :-)

Ég fór til Englands yfir jól og áramót og gisti hjá mömmu og pabba sem eru búin að koma sér ljómandi vel fyrir í mjög fínni íbúð með tveim svefniherbergjum og tvískiptu baðherbergi... þ.e. klósettið er í einu herbergi og svo baðkarið og vaskurinn í öðru, sem er frábært, maður getur lagst í bað án þess að teppa klósettið sko.. algjör snilld. Það var alveg frábært að hitta foreldrana og Ellu, Trevor, Esju og Sólu. Við áttum yndislegt aðfangadagskvöld öll saman og mamma Trevors líka auðvitað, borðuðum kalkún og nautakjöt með allskonar gúmmulaði, pabbi eldaði kalkúninn og Ella nautið. Æðislega gott, svo eftir að búið var að ganga frá var farið að rífa upp pakka og þvílíkt pakkaflóð! Esja litla gat ekki einu sinni opnað alla pakkana það kvöldið, nokkrir voru geymdir þar til næsta dag og ég held daginn eftir það líka! En allir voru glaðir með sitt, ég fékk fullt af bókum, náttföt, rúmföt, konfekt, myndir af stelpunum hennar Ellu og ramma með þeim, spólur með uppistandara sem heitir Peter Kay, eyrnalokka, engla og margt fleira. Alveg ljómandi bara.

Dögunum var svo bara eytt með fjölskyldunni, við mamma fórum til Brighton að versla á útsölunum, pössuðum Esju og Sólu í tvo daga og svo vorum við öll í svaka skemmtilegu áramótapartýi hjá Ellu og Trevori, skutum upp flugeldum og höfðum það almennt mjög huggulegt. Síðasta deginum mínum (mánudeginum síðasta) eyddi ég svo á rölti um miðbæ Worthing með Ellu og svo elduðum við mat heima hjá henni og ég hjálpaði við að baða stelpurnar í síðasta skipti í bili og kyssti góða nótt og bless í leiðinni. Mamma og pabbi skutluðu mér svo á flugvöllinn á þriðjudaginn á bílaleigubíl (eru ekki búin að fá sér bíl ennþá enda nýkomin til þess að gera) og svo fór ég í 7 tíma flugið heim. BA eru með fínar vélar, sérstaklega finnst mér frábært að það er sjónvarp við hvert sæti og maður getur valið sér bíómyndir að horfa á og mest allt nýlegar myndir, ég horfði á Wimbeldon og Garden State á leiðinni og las í jólabókum og svo bók sem ég keypti á flugvellinum "The Long Way Round" eftir Ewan McGregor og Charley Boorman sem er skrifuð í dagbókarstíl um ferðina þeirra frá London til New York á mótorhjólum the long way round, þ.e. gegnum Frakkland, Þýskaland, Swiss, Tékkland, Slóvakíu, Kazakstan, Mongólíu, Síberíu, Alaska og svo í gegnum Bandaríkin til New York. Það voru einmitt gerðið sjónvarpsþættir um þetta sem ég hef reynt að horfa á bæði hér og í Englandi.. en mig vantar að sjá byrjunina. Gaman að þessu öllu. En alla vega nú er ég komin heim og Sibba er á leiðinni til mín í næstu viku í heimsókn. Svo koma Tinna og Ella um páskana (WOOHOO) og svo hittumst við öll fjölskyldan vonandi í Englandi í kringum afmælið hennar Tinnu í maí. Fullt að hlakka til.. en læt þessu lokið í bili... langaði bara að segja GLEÐILEGT ÁR svona á síðasta degi jóla í þetta skiptið, þakka fyrir móttökurnar í Englandi og segja ykkur þar að ég sakna ykkar mikið, það vantaði bara Tinnu systur og Pete og þá hefði þetta verið fullkomið, gengur betur næst, ha?? Alla vega hafið það sem best.. meira seinna.

20:47 Viltu blaðra?

17.12.04  
Jæja þá er Donald Trump kominn með nýjan starfsmann.. engar áhyggjur ég skal ekki eyðileggja fyrir ykkur restina af tímabilinu þannig að ég segi ekkert um þetta og svo var kynnt næsta þáttaröð eða The Apprentice 3. Þannig að maður losnar ekki við að horfa á The Donald næstu árin ábyggilega.

Er enn að vesenast með jólagjafir og eitthvað, keypti reyndar gjöf handa annarri af uppáhalds systurdætrum mínum í dag, hlakka voða til að hún opni pakkann og sem betur fer fæ ég að vera viðstödd þegar hún opnar. Víííí bara 5 dagar þangað til ég legg í hann til Englands til fundar við fjölskylduna, verst að litla verður ekki með okkur að þessu sinni en hún er að taka á móti tengdamömmu sinni og mágkonu þannig að henni á ekki eftir að leiðast um jólin svo sem, en það hefði bara verið svo gaman að vera öll saman.. ach well kannski næsta ár?

Annars er allt fínt að frétta, nóg að gera í vinnunni eins og alltaf, sem er frábært, ekkert leiðinlegra en að þurfa að hanga á einhverri skrifstofu og hafa ekkert að gera! Fór í gær upp í Norræna hús (Scandinavia House) en þar var staðið fyrir íslensku kvöldi, glögg og piparkökur, íslenskt sælgæti og önnur gæðavara að heiman (66°Norður og íslensk ull). Ég keypti suðusúkkulaði og ætla að reyna að baka sérlega góðar súkkulaði smákökur, eftir uppskrift frá Petrínu, um helgina. Hlakka til að reyna þetta, smá svona jólastemmning, ætla líka að reyna að gera kókostoppa, líka eftir uppskrift frá Petrínu.. og svo þarf að þvo þvott og þrífa íbúðina áður en ég fer. Þannig að það er enginn rólegheitatími framundan svo sem, vona að þið séuð langt komin í ykkar jólaundirbúningi.. það er alltaf svo gaman að hafa nógan tíma til að stússast. Eini tími ársins sem mér finnst verulega gaman að þrífa íbúðina, ég er eiginlega í fráhvarfseinkennum að bera ekki á leðursófasettið hjá mömmu og pabba (andvarp) en ég reyni að einbeita mér bara að þrifum hérna í minni íbúð. Anyway, ætla að fara að halla mér.. bið að heilsa í bili bara.

01:47 Viltu blaðra?

13.12.04  
Fór að sjá PIXIES á tónleikum í gær og verð ég að segja að ég varð ekkert sérstaklega fyrir vonbrigðum :0))) Rokkuðu feitt eins og þeirra er von og vísa og tóku ábyggilega hátt í 30 lög. Fínn kraftur í þeim gömlu og sá ég mun betur en í vor í Kaliforníu.. sá alla hljómsveitina allan tímann og syngja og dansa að sjálfsögðu. Fólk á nokkuð breiðum aldri á staðnum og ég held að allir hafi skemmt sér vel.

Var bara heima á laugardagskvöldið eftir að hafa farið út á fimmtudaginn og föstudaginn og svo í gærkveldi þurfti ég bara að hvíla mig smá. Fór út að borða á fimmtudagskvöldið með Beggu, við erum búnar að ætla að fara á vissan veitingastað og fá okkur dýrðlegt sjávarréttapasta í langan tíma og létum loks verða af því, fórum svo niður í bæ og fengum okkur smá hvítvín í rólegheitunum. Á föstudaginn var Bjarni vinnufélagi minn svo með "litlu jól" og bauð upp á flatkökur með hangikjöti sem var alveg toppurinn.. enda hámuðu allir í sig sem mest þeir máttu. Við Begga kíktum svo auðvitað aðeins út og enduðum á Pangea að spjalla við "aðra fastagesti" og yndæla barþjóninn okkar hann Marek þar til tími var til kominn að fara heim. Paul og Dave vinir Beggu kíktu við og drukku með okkur eitt eða tvö glös og voru svaka skemmtilegir eins og þeirra er von og vísa. Ætla svo að klára jólagjafakaupin í vikunni.. enda alltaf að styttast í jólafríið :-)

21:22 Viltu blaðra?

5.12.04  
Jæja þá er maður byrjaður að kaupa jólagjafirnar og kominn tími til.. ætti auðvitað að vera búin að þessu og þegar búin að senda pakkann heim.. en þetta er nú bara eins og það er. Ætla að reyna að klára gjafirnar til Íslands á morgun og senda á mánudaginn, þá vonandi kemst allt til skila fyrir jól!

Hef átt bráðskemmtilega daga frá síðasta bloggi.. kalkúnadagurinn stóri kom og fór.. mér var boðið á nokkra staði í ár en ákvað að fara til Beggu og Davids og eyða kvöldinu með þeim og nokkrum vel völdum vinum á heimili þeirra hjóna í Brooklyn. Ég hafði í einhverju bríeríi státað af því að vera nokkuð frambærilegur bakari og var auðvitað falið að baka súkkulaðiköku! Núh.. ég auðvitað fór og keypti allt í kökuna daginn áður og ætlaði að baka það sama kvöld. Þegar heim var komið fann ég auðvitað bara annað botnaformið mitt og því voru góð ráð dýr. Að morgni Þakkargjörðadagsins rauk ég svo út í búð (jamm matvöruverslanir og fleira opið að sjálfsögðu í Ammríkunni meira að segja á frídögum) að kaupa kökuform. Í búðinni ská á móti voru bara til einhver undarleg sílíkon gúmmíform sem ég keypti reyndar og dreif mig svo heim að þvo þessi undarlegheit.. hringdi í Sif G. vinkonu sem er gúrmet kokkur og bakari og spurði ráða varðandi formin. Hún sagðist hafa heyrt um þessa undravöru og að það ætti ekkert að gera við þau, þ.e. ekki smyrja að innan bara setja deigið í og baka. Ég dreif í þessu og kakan komin í ofninn um tólfleytið þannig að ég sá að þetta myndi allt vera frábært. Nógur tími til að setja krem á og allt það. Þegar botnarnir voru bakaðir leyfði ég þeim að kólna í formunum og vatt mér svo í að losa þá úr og útbúa kremið. Ekki vildi þó betur til en að ég náði botnunum alls ekki úr formunum nema í tætlum. Ekkert annað að gera en að hlaupa í aðra búð aðeins lengra í burtu og kaupa ný form.. í þetta sinn úr einhverskonar málmi sem ég smurði svo vel og vandlega að innan áður en ég setti nýtt deig í þau og skellti í ofninn. Kakan sem betur fer tókst vel og var mér sagt að hún hafi smakkast vel.. ég bragðaði ekki á henni. Ég tók svo bíl inn í Brooklyn til Beggu og Dave og hitti þar fullt af skemmtilegu fólki og fékk frábæran mat, kalkún og fyllingu, kartöflur og annað meðlæti og fullt fullt af rússneskum réttum útbúnum af heimilisföðurnum enda hann rússneskur í báðar. Skálað í vodka í gríð og erg og léttvín í flöskutali hvarf eins og hendi væri veifað.. sem sagt frábært kvöld, ekki síst fyrir félagsskapinn sem var alveg fyrsta flokks.

Daginn eftir fórum við Begga og Maddie vinkona hennar í bíó og sáum Bridget Jones's Diary, The Edge of Reason sem mér fannst alveg ljómandi fyndin á köflum. Ég lít þó á þessa mynd eins og þá fyrri sem auka-Bridget efni.. ekki eftirgerðir bókanna, meira svona eins og bónus.. og það er alltaf gaman.

Svo er náttúrulega bara gaman í vinnunni og nóg af allskonar jólaboðum og skemmtilegheitum eins og alltaf á þessum árstíma þannig að manni leiðist ekki get ég sagt ykkur. Anýhú.. ég bið að heilsa í bili og vona að þið hugsið til mín í jólagjafaveseninu.. ég hugsa til ykkar elskurnar :-))

01:48 Viltu blaðra?

17.11.04  
Svona fyrir Sif og Sibbu meira langar mig aðeins að tala meira um Interpol tónleikana og þá helst um Íslendinga-vininn Carlos D. Ég veit að þið eruð búnar að bíða spenntar eftir þessu og nú er tími til kominn að segja frá. Vinur okkar sem sló í gegn síðast þegar við þrjár sáum hann á sviði með kúreka lúkki (byssubelti et al) var í þetta sinn klæddur í einhverskonar nútíma Hitler-æsku-átfit. Ég hef eiginlega ekki annað orð yfir þetta, hann var í svörtum buxum og skyrtu með rautt bindi og rauðan borða um upp-handlegg vinstra megin (minnir mig).. við vorum mjög hissa og margir voru á því að þetta væri nú kannski ekki alveg besta útlitið fyrir hann eða mann í hans stöðu almennt! Við Lilja og Eyjó voum að ræða þetta eftir tónleikana yfir einum eða tveim kollum og bentu þau mjög réttilega á að Carlos væri mjög farinn að líkjast The Thin Man úr Charlies Angels myndunum. Ég sá þetta ekki reyndar frá fyrstu hendi á tónleikunum en þegar þau minntust á það er þetta alveg rétt... hárið og fötin, hreyfingarnar :-) bráðum verður hann farinn að rífa hárlokka af fólki til að þefa af! Hann verður samt alltaf sami über töffarinn, það er á hreinu.

Í öðrum fréttum er svo t.d. það að þið verðið að horfa á næstu Amazing Race seríu í sjónvarpinu þar sem að fyrsti þátturinn (sem var reyndar 2 tímar hérna) var nánast allur tekinn upp á Íslandi og var ekki leiðinlegt að fylgjast með því. CBS sjónvarpsstöðin sýnir þættina eins og alltaf hérna megin við hafið og er með skemmtilegt innskot í morgunþætti sjónvarpsstöðvarinnar í morgun og út vikuna skilst mér þar sem að tveir af kynnum þeirra fara í spor keppenda í þáttunum og byrja að sjálfsögðu líka á að fara til Íslands, svaka landkynning og við höfum aðeins fundið fyrir því í dag í vinnunni að fólk er að hringja og biðja um bæklinga og upplýsingar um vegabréfsáritanir svo.. áfram Amazing Race!

Svo er bara allt gott að frétta af foreldrunum, þau eru flutt inn í svaka fína íbúð sem þau eru með á leigu þarna í Englandinu, eru að vinna í að fá síma og bíl og bara allt sem maður þarf. Heyri í þeim reglulega og bara gott hljóðið. Ég er líka bara þokkalega hress, við ágæta heilsu, veðrið skaplegt og allt það svei mér þá. Bið að heilsa heim í snjóinn...

22:02 Viltu blaðra?

13.11.04  
Langaði bara að segja ykkur, ef einhver nennir enn að skoða þessa síðu, að ég var á fínum Interpol tónleikum í gærkveldi. Eina sem hægt er að kvarta yfir er að þeir spiluðu bara í rúman klukkutíma.. á fullu blasti reyndar, en ég verð að segja að ég hefði alveg þolað hálftíma til klukkutíma í viðbót. Þeir tóku ekki einu sinni öll lögin af nýju plötunni og þó að þeir hafi spilað nokkur lög af þeirri gömlu þá tóku þeir ekki mín uppáhaldslög! En þrátt fyrir allt er alltaf ofur kúl að sjá Interpol spila sko og þess vegna var mjög gaman. Siggi var í bænum og kom hann með á tónleikana. Eins langar mig að láta vita að ég er búin að fara á tónleika með Morrisey í fyrsta skiptið og varð ekki fyrir vonbrigðum með kallinn... Ella, hann skipti um skyrtu 5 eða 6 sinnum á einum og hálfum tíma.. þýðir það eitthvað? :-)))) Er líka búin að fara á tónleika með Death Cab for Cutie og á tónleika með Blonde Redhead og var mjög gaman á þeim öllum þó að reyndar hafi verið mjög erfitt að hlusta á uppklappslögin hjá Blonde Redhead.. soldið erfið fyrir hlustirnar.

Siggi er búinn að vera á landinu í viku og gisti hann hjá mér fyrstu tvær næturnar og bauð mér út að borða á æðislegan japanskan veitingastað sem heitir Nobu Next Door sem var alveg brilliant. Ég fer alveg pottþétt aftur þarna, kannski þegar ég fæ næst gesti að heiman?!

Fór að horfa á heimildarmynd sem heitir Kiran over Mongolia og er um fólk frá Kazakstan sem býr í Mongólíu og hefur í aldaraðir notað gullna erni til að veiða. Mjög heillandi umfjöllunarefni og myndin í alla staði mjög fín. Anna Halldórsdóttir svaka skemmtileg stelpa sem ég kynntist hérna í gegnum Sif (sakna þín og Kidz mikið) sá um tónlistina í myndinni en kærastinn hennar Joseph Spaid leikstýrði og framleiddi myndina. Vona að þeim gangi vel að koma myndinni á framfæri þau eiga það alveg skilið.

Vil helst ekki tala um kosningarnar hér í landi um daginn.. flestir í borginni virðast vera þunglyndir yfir úrslitunum og það er búið að ræða þetta alveg til hins ítrasta og fátt eftir ósagt og því nenni ég ekki að ræða þetta! Bið bara að heilsa í bili og vona að það séu allir í góðu stuði hvar í heiminum sem þið eruð.

23:03 Viltu blaðra?

 
This page is powered by Blogger.
Weblog Commenting by HaloScan.com