Sögur af lífi utanríkisráðuneytisstarfskonu í Nýju Jórvík...

 
Archives
<< current

 
Sibba
Sif
Binna sæta
Fríríkið
Kollý
Jóhanna Ósk
Fjalar
Deeza's Diner
Erla


Sögur frá Nýju Jórvík
 
17.12.04  
Jæja þá er Donald Trump kominn með nýjan starfsmann.. engar áhyggjur ég skal ekki eyðileggja fyrir ykkur restina af tímabilinu þannig að ég segi ekkert um þetta og svo var kynnt næsta þáttaröð eða The Apprentice 3. Þannig að maður losnar ekki við að horfa á The Donald næstu árin ábyggilega.

Er enn að vesenast með jólagjafir og eitthvað, keypti reyndar gjöf handa annarri af uppáhalds systurdætrum mínum í dag, hlakka voða til að hún opni pakkann og sem betur fer fæ ég að vera viðstödd þegar hún opnar. Víííí bara 5 dagar þangað til ég legg í hann til Englands til fundar við fjölskylduna, verst að litla verður ekki með okkur að þessu sinni en hún er að taka á móti tengdamömmu sinni og mágkonu þannig að henni á ekki eftir að leiðast um jólin svo sem, en það hefði bara verið svo gaman að vera öll saman.. ach well kannski næsta ár?

Annars er allt fínt að frétta, nóg að gera í vinnunni eins og alltaf, sem er frábært, ekkert leiðinlegra en að þurfa að hanga á einhverri skrifstofu og hafa ekkert að gera! Fór í gær upp í Norræna hús (Scandinavia House) en þar var staðið fyrir íslensku kvöldi, glögg og piparkökur, íslenskt sælgæti og önnur gæðavara að heiman (66°Norður og íslensk ull). Ég keypti suðusúkkulaði og ætla að reyna að baka sérlega góðar súkkulaði smákökur, eftir uppskrift frá Petrínu, um helgina. Hlakka til að reyna þetta, smá svona jólastemmning, ætla líka að reyna að gera kókostoppa, líka eftir uppskrift frá Petrínu.. og svo þarf að þvo þvott og þrífa íbúðina áður en ég fer. Þannig að það er enginn rólegheitatími framundan svo sem, vona að þið séuð langt komin í ykkar jólaundirbúningi.. það er alltaf svo gaman að hafa nógan tíma til að stússast. Eini tími ársins sem mér finnst verulega gaman að þrífa íbúðina, ég er eiginlega í fráhvarfseinkennum að bera ekki á leðursófasettið hjá mömmu og pabba (andvarp) en ég reyni að einbeita mér bara að þrifum hérna í minni íbúð. Anyway, ætla að fara að halla mér.. bið að heilsa í bili bara.

01:47 Viltu blaðra?

13.12.04  
Fór að sjá PIXIES á tónleikum í gær og verð ég að segja að ég varð ekkert sérstaklega fyrir vonbrigðum :0))) Rokkuðu feitt eins og þeirra er von og vísa og tóku ábyggilega hátt í 30 lög. Fínn kraftur í þeim gömlu og sá ég mun betur en í vor í Kaliforníu.. sá alla hljómsveitina allan tímann og syngja og dansa að sjálfsögðu. Fólk á nokkuð breiðum aldri á staðnum og ég held að allir hafi skemmt sér vel.

Var bara heima á laugardagskvöldið eftir að hafa farið út á fimmtudaginn og föstudaginn og svo í gærkveldi þurfti ég bara að hvíla mig smá. Fór út að borða á fimmtudagskvöldið með Beggu, við erum búnar að ætla að fara á vissan veitingastað og fá okkur dýrðlegt sjávarréttapasta í langan tíma og létum loks verða af því, fórum svo niður í bæ og fengum okkur smá hvítvín í rólegheitunum. Á föstudaginn var Bjarni vinnufélagi minn svo með "litlu jól" og bauð upp á flatkökur með hangikjöti sem var alveg toppurinn.. enda hámuðu allir í sig sem mest þeir máttu. Við Begga kíktum svo auðvitað aðeins út og enduðum á Pangea að spjalla við "aðra fastagesti" og yndæla barþjóninn okkar hann Marek þar til tími var til kominn að fara heim. Paul og Dave vinir Beggu kíktu við og drukku með okkur eitt eða tvö glös og voru svaka skemmtilegir eins og þeirra er von og vísa. Ætla svo að klára jólagjafakaupin í vikunni.. enda alltaf að styttast í jólafríið :-)

21:22 Viltu blaðra?

5.12.04  
Jæja þá er maður byrjaður að kaupa jólagjafirnar og kominn tími til.. ætti auðvitað að vera búin að þessu og þegar búin að senda pakkann heim.. en þetta er nú bara eins og það er. Ætla að reyna að klára gjafirnar til Íslands á morgun og senda á mánudaginn, þá vonandi kemst allt til skila fyrir jól!

Hef átt bráðskemmtilega daga frá síðasta bloggi.. kalkúnadagurinn stóri kom og fór.. mér var boðið á nokkra staði í ár en ákvað að fara til Beggu og Davids og eyða kvöldinu með þeim og nokkrum vel völdum vinum á heimili þeirra hjóna í Brooklyn. Ég hafði í einhverju bríeríi státað af því að vera nokkuð frambærilegur bakari og var auðvitað falið að baka súkkulaðiköku! Núh.. ég auðvitað fór og keypti allt í kökuna daginn áður og ætlaði að baka það sama kvöld. Þegar heim var komið fann ég auðvitað bara annað botnaformið mitt og því voru góð ráð dýr. Að morgni Þakkargjörðadagsins rauk ég svo út í búð (jamm matvöruverslanir og fleira opið að sjálfsögðu í Ammríkunni meira að segja á frídögum) að kaupa kökuform. Í búðinni ská á móti voru bara til einhver undarleg sílíkon gúmmíform sem ég keypti reyndar og dreif mig svo heim að þvo þessi undarlegheit.. hringdi í Sif G. vinkonu sem er gúrmet kokkur og bakari og spurði ráða varðandi formin. Hún sagðist hafa heyrt um þessa undravöru og að það ætti ekkert að gera við þau, þ.e. ekki smyrja að innan bara setja deigið í og baka. Ég dreif í þessu og kakan komin í ofninn um tólfleytið þannig að ég sá að þetta myndi allt vera frábært. Nógur tími til að setja krem á og allt það. Þegar botnarnir voru bakaðir leyfði ég þeim að kólna í formunum og vatt mér svo í að losa þá úr og útbúa kremið. Ekki vildi þó betur til en að ég náði botnunum alls ekki úr formunum nema í tætlum. Ekkert annað að gera en að hlaupa í aðra búð aðeins lengra í burtu og kaupa ný form.. í þetta sinn úr einhverskonar málmi sem ég smurði svo vel og vandlega að innan áður en ég setti nýtt deig í þau og skellti í ofninn. Kakan sem betur fer tókst vel og var mér sagt að hún hafi smakkast vel.. ég bragðaði ekki á henni. Ég tók svo bíl inn í Brooklyn til Beggu og Dave og hitti þar fullt af skemmtilegu fólki og fékk frábæran mat, kalkún og fyllingu, kartöflur og annað meðlæti og fullt fullt af rússneskum réttum útbúnum af heimilisföðurnum enda hann rússneskur í báðar. Skálað í vodka í gríð og erg og léttvín í flöskutali hvarf eins og hendi væri veifað.. sem sagt frábært kvöld, ekki síst fyrir félagsskapinn sem var alveg fyrsta flokks.

Daginn eftir fórum við Begga og Maddie vinkona hennar í bíó og sáum Bridget Jones's Diary, The Edge of Reason sem mér fannst alveg ljómandi fyndin á köflum. Ég lít þó á þessa mynd eins og þá fyrri sem auka-Bridget efni.. ekki eftirgerðir bókanna, meira svona eins og bónus.. og það er alltaf gaman.

Svo er náttúrulega bara gaman í vinnunni og nóg af allskonar jólaboðum og skemmtilegheitum eins og alltaf á þessum árstíma þannig að manni leiðist ekki get ég sagt ykkur. Anýhú.. ég bið að heilsa í bili og vona að þið hugsið til mín í jólagjafaveseninu.. ég hugsa til ykkar elskurnar :-))

01:48 Viltu blaðra?

 
This page is powered by Blogger.
Weblog Commenting by HaloScan.com